Neytendasamtökin mótmæla harðlega breytingum á virðisaukaskatti á matvæli úr 7% í 12%, en þetta kemur fram á heimasíðu samtakanna.

Segja samtökin að ekki sé hægt að fallast á þau rök að breytingarnar séu til einföldunar á skattkerfinu enda verði skattþrepin áfram tvö, þó svo að annað hækki um 5% en hitt lækki um 1,5%. Þau segjast þó styðja hugmyndir um að leggja niður vörugjöld enda sé það til þess fallið að einfalda skattkerfið, auk þess sem þau séu oftar en ekki lögð á vörur sem nauðsynlegar eru heimilunum. Þá minna þau á að þessar sömu vörur séu í hærra virðisaukaskattþrepinu og séu opinberar álögur á vörurnar því mjög miklar.

Niðurfelling vörugjalda og lækkun hærra virðisaukaskattþrepsins vega þó ekki á móti mikilli hækkun virðisaukaskatts á matvæli að mati Neytendasamtakanna. Einnig gera samtökin ráð fyrir að hækkun á matarskatti komi fram í verðlagi um leið og hún tekur gildi og hafi þar með umtalsverð áhrif á verðtryggingu húsnæðislána.