Ekki er heimilt að auglýsa ábyrgð á bifreiðum nema í ábyrgðinni felist raunverulega eitthvað meira en neytandinn á lagalegan rétt á. Ef í raun er bara verið að tala um fimm ára kvörtunarfrest vegna galla ætti ekki auglýsa hann sem „ábyrgð“.

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna þar sem fjallað er um auglýsingu Toyota umboðsins sem nýlega hóf að auglýsa nýja bíla með fimm ára ábyrgð.

Neytendasamtökin segja að í neytendakaupalögum (þ.e. þegar neytandi kaupir vöru af fyrirtæki) sé að finna svokallaða fimm ára reglu sem gerir það að verkum að kvörtunarfrestur er fimm ár vegna galla í hlutum sem ætlaður er verulega lengri endingartími en gildir um söluhluti almennt.

„Þetta hefur í för með sér að þegar um er að ræða stærri og endingarbetri hluti hefur neytandi fimm ár til að tilkynna seljanda um galla,“ segir á vef Neytendasamtakanna og tekið er fram að kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa hafi komist að þeirri niðurstöðu að bifreiðar falli þarna undir.

Þá segja Neytendasamtökin að ekki sé heimilt að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu nema verið sé að bjóða meira en neytandi á rétt á samkvæmt lögum. Neytandi geti kvartað yfir galla á bifreið í fimm ár frá því hann veitir henni viðtöku, að því gefnu að hann tilkynni um gallann innan hæfilegs tíma og að um galla, en ekki t.a.m. eðlilegt slit, sé að ræða.

„Kvörtunarfrestur er einfaldlega fimm ár óháð yfirlýsingum seljanda og verksmiðjuábyrgð, en ekki má semja um að neytandi eigi minni rétt en ráða má af lögunum,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

Þá segja Neytendasamtökin jafnframt að ekki sé skylda að fara með bifreið í reglulegar þjónustuskoðanir hjá bílaumboði. Eigandi bifreiðar þurfi vissulega að sinna viðhaldi bifreiðar, fara með hana í smurningu og þess háttar, enda auki vanræksla líkurnar á alvarlegum bilunum.

„Sinni neytandi viðhaldi og eftirliti ekki sem skyldi getur það líka veikt réttarstöðu hans ef upp kemur galli,“ segir á vef samtakanna.

„Hins vegar á neytandi samkvæmt lögum rétt á að fá úrbætur vegna galla sem upp kemur og ekki er heimilt að skilyrða þann rétt með því að skylda fólk til að mæta með bifreiðar í þjónustuskoðanir á ákveðna staði. Kjósi neytendur að láta önnur verkstæði en umboðsverkstæði sinna reglubundnu viðhaldi er ekkert í lögum sem kemur í veg fyrir það.“