Á síðasta stjórnarfundi Neytendasamtakanna komu fram áhyggjur af miklum verðhækkunum á matvörum, bæði hækkunum sem þegar hafa orðið en einnig hækkunum sem boðaðar hafa verið.

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.

Stjórnin samþykkti að senda forsætisráðherra bréf þar sem óskað er eftir að hann beiti sér fyrir því að stofnað verði til samráðsvettvangs til að hamla gegn verðhækkunum á matvörum.

Þar kemur fram að samtökin efi að hækkanir sem „dunið hafa á neytendum megi skýra með hækkun á heimsmarkaðsverði og veikingu krónunnar,“ eins og segir í bréfinu til forsætisráðherra.

Neytendasamtökin vilja að forsætisráðherra skoði hvort rök séu fyrir hækkunum eða hvort framleiðendur, birgjar eða smásalar séu í skjóli hækkana á heimsmarkaði að hækka álagningu sína.

Senda einnig bréf til Samkeppniseftirlitsins

Einnig var samþykkt að senda erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem óskað er að rannsakað verði hvort um sé að ræða hækkanir sem eiga sér eðlilegar skýringar eða hvort framleiðendur, birgjar og/eða smásöluaðilar séu í skjóli af miklum verðhækkunum á heimsmarkaði að hækka álagningu sína.