Í lok ágúst og byrjun september fóru starfsmenn Neytendastofu og könnuðu verðmerkingar á líkamsræktarstöðum og bakaríum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en helst er frá því að segja að af 21 líkamsræktarstöð var verðskrá ekki sýnileg hjá sex stöðvum (29%) það eru Curves, Hreyfing, Baðhúsið, Grand Spa, Árbæjarþrek sem eru í Reykjavík og Sporthúsið í Kópavogi.

Þær stöðvar sem komu einna best út úr þessari könnun á verðmerkingum voru Bootcamp Rvk., Dansrækt JSB Rvk., Heilsuakademían Rvk., Mecca Spa Kóp., Pumping Iron Rvk. og 3 stöðvar hjá World Class: Réttarhálsi 1 Rvk., Spönginni Rvk. og Lækjarhlíð 1a í Mosfellsbæ.

„Yfir heildina voru 38% stöðva með verðmerkingar í lagi en hjá 62% stöðva var verðmerkingum ábótavant,“ segir á vef Neytendastofu.

„Greinilegt er að eftirlit sem þetta er nauðsynlegt til að minna rekstraraðila á sjálfsagðan rétt neytenda til aðgengilegra og greinilegra verðmerkinga.“

Bakaríin: Verðmerkingar í lagi í 64% tilvika

Þá athuguðu starfsmenn Neytendastofu sem fyrr segir verðmerkingar í bakaríum en fftir því sem fram kemur á vef stofnunarinnar fór fram athugun á „ástandi“ verðmerkinga í 53 bakaríum í eigu 24 fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur að verðmerkingar voru í góðu lagi á 34 stöðum af þeim 53 sem voru í úrtakinu eða 64% heimsóttra staða. Svo til öll bakaríin, eða 92% þeirra, voru með vel verðmerktar vörur í borði. Ástandið var aftur á móti verra á vörum í kæli og hillum eða stöndum á gólfi.

Samkvæmt vef Neytendastofu var ástand verðmerkinga hins vegar verst í Sandholts bakarí á Laugavegi og Kökulist Fjarðagötu þar sem bæði vörur í borði og kæli voru óverðmerktar.

„Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástands verðmerkinga verður sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf,“ segir á vef stofnunarinnar.

„Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.“

Sjá nánar á vef Neytendastofu.