Neytendastofa hefur tekið þá ákvörðun að Celsus ehf. hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Að mati Neytendastofu vann Celsus ehf. sér það til saka að hafa fullyrt í auglýsingum, í fjölmiðlum og á vefsíðu fyrirtækisins, að Proderm sólvörn veiti sex klukkustunda vörn óháð svita, sand, sjó, leik og handklæðaþurrkun.

Neytendastofu barst kvörtun frá Beiersdorf ehf. þar sem kvartað var yfir því að auglýsingar Celsus ehf. á Proderm sólvörn brjóti gegn ákvæðum laga.

Í erindinu segir að Celsus hafi auglýst Proderm sólvörn með villandi hætti þar sem gefið sé í skyn að varan hafi eiginleika sem ýmist séu afar óljósir eða ósannaðir.

„Rétt notkun vörunnar sé nauðsynlegt öryggi neytenda gagnvart skaðlegum geislum sólar og því sé skaðlegt að varan sé auglýst með villandi hætti,“ segir í úrskurði Neytendastofu.

Ákvörðun Neytendastofu má lesa í heild sinni hér.