Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Kortaþjónustan ehf. hafi brotið gegn ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005 með með notkun rangra og villandi upplýsinga við samanburð í fréttabréfi og á vefsíðu fyrirtækisins.

Í október síðastliðnum kvartaði Valitor hf. yfir villandi auglýsingum Kortaþjónustunnar ehf.

Kvörtun Valitor var fjórþætt.

Í fyrsta lagi er kvartað yfir því að uppgjörsstaðhæfingar séu rangar. Kvartandi bjóði viðskiptavinum sínum þrjár mismunandi leiðir í uppgjöri en auglýsingin gefi til kynna að einungis sé um mánaðarlegt uppgjör að ræða.

Í öðru lagi er kvartað yfir því að umfjöllun um þóknanir og gjöld séu villandi og rangar. Uppgefin þóknun í auglýsingunni sé töluvert hærri en raunþóknun kvartanda sé og virðist Kortaþjónustan viljandi fara með rangt mál í þeim tilgangi að villa um fyrir hugsanlegum viðskiptavinum.

Í þriðja lagi er kvartað yfir því að kvartandi sé borinn saman við annan keppinaut, þ.e. Borgun, og líti þannig út fyrir að Valitor innheimti gjöld sem fyrirtækið gerir ekki. Bendir kvartandi í þessu sambandi á að Kortaþjónustan hefði hæglega geta bætt við öðrum dálki í auglýsinguna og þannig aðskilið fyrirtækin tvö sem Kortaþjónustan ber sig saman við. Alhæfingar Kortaþjónustunnar eins og þær eru fram settar í auglýsingunni séu rangar, misvísandi og ámælisverðar.

Í fjórða lagi er kvartað yfir því að framsetning Kortaþjónustunnar á raunþóknun m.v. daglegt uppgjör sé röng.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en skýrslu stofnunarinnar má nálgast hér .