Neytendastofu hefur lagt dagsektir á fjögur dekkjaverkstæði sem fylgdu ekki ábendingum stofnunarinnar um upplýsingagjöf. Verkstæðin sem um ræðir eru N1, VipDekk, Dekkjaþjónustan og Kvikkfix. Fyrirtækin þurfa að greiða 20 þúsund krónur á dag þar til úrbætur hafa verið gerðar. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Á vormánuðum gerði stjórnvaldið könnun á upplýsingagjöf dekkjaverkstæða. Könnun náði til fimmtán verkstæða og sneri að verðmerkingum á vefsíðum þeirra. Því til viðbótar var kannað hvort allar nauðsynlegar upplýsingar um fyrirtækin kæmu þar fram.

Sú athugun leiddi í ljós að ekkert fyrirtækjanna uppfyllti skyldur laga þess efnis. Stjórnvaldið fór því fram á að úrbætur yrðu gerðar á heimasíðunum. Mánuði síðar hafði eitt verkstæði lagfært heimasíðu sína og ítrekaði Neytendastofa þá skilaboð sín.

Fyrirtækin fjögur, sem dagsektir voru lagðar á, hafa ekki svarað erindum stofnunarinnar og var því gripið til dagsektanna.