Neytendastofa hefur sektað Senu hf., sem rekur Smárabíó og Háskólabíó, um 200 þúsund krónur fyrir slakar verðmerkingar í fyrrgreindum bíóhúsum.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu sem gerði könnun á ástandi verðmerkinga hjá kvikmyndahúsum í febrúar sl.

„Kvikmyndahúsum ber skylda til að verðmerkja allar söluvörur sínar, þ.m.t. í afgreiðsluborði og nammibar,“ segir á vef Neytendastofu.

„Hjá Smárabíó voru vörur í afgreiðsluborði óverðmerktar og hjá Háskólabíó var ekkert sýnilegt kílóaverð við nammibar.“

Þá kemur fram að Senu var gefinn kostur á að koma verðmerkingum í rétt horf en þar sem ekki var farið að tilmælum Neytendastofu hefur stofnunin lagt á Senu sekt að fjárhæð 200.000 kr.

Sjá ákvörðun Neytendastofu í heild sinni.