Neytendastofa hefur sektað sjö rekstraraðila matvöruverslana fyrir að fara ekki að fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta verðmerkingar. Voru verslanirnar sektaðar um samtals 6.050.000 krónur. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar .

Þar segir að Neytendastofa hafi gert athugasemdir við verðmerkingar í flestum þeirra matvöruverslana sem skoðaðar voru nýlega af stofnuninni. Þegar skoðuninni var fylgt eftir höfðu 19 verslanir ekki gert fullnægjandi umbætur á verðmerkingum.

Í flestum verslunum voru gerðar athugasemdir við fjölda ómerktra eða vitlaust verðmerktra vara en einnig höfðu athugasemdir verið gerðar við að einingaverð vantaði í nokkrum verslunum.

Neytendastofa hefur nú ákveðið að leggja stjórvaldssekt á fyrirtækin 10-11, Bónus, Iceland, Krónuna, Plúsmarkaðinn, Samkaup og Vietnam Market.