Neytendastofa hefur lagt á eins milljóna króna sekt á Cromwell Rugs þar sem stofnunin telur að teppasalinn hafi viðhaft óréttmæta viðskiptahætti í auglýsingum sínum. Er þetta í annað sinn sem Neytendastofa sektar Cromwell Rugs, sem Íraninn Alan Talib á, en fyrirtækið fékk á sig þriggja milljóna króna sekt í október vegna auglýsingu um rýmingarsölu en hún er nú til meðferðar hjá áfrýjunarnefndar neytendamála.

Neytendastofa segir í ákvörðun sinni, sem birt var í dag, að félagið hafi ítrekað haldið því ranglega fram í auglýsingum að vörur félagsins væru aðeins fáanlegar í mjög stuttan tíma, að félagið væri við það hætta verslun og um það bil að flytja sig um set. Þá taldi Neytendastofa að félaginu bæri að birta endanlegt verð í auglýsingum sínum.

„Taldi stofnuninni rétt að banna félaginu að viðhafa umrædda viðskiptahætti og taldi rétt með hliðsjón af aðstæðum í málinu að leggja á félagið sekt að fjárhæð 1.000.000 krónur,“ segir í tilkynningunni .

Stuttur sölutími teppa

Neytendastofa sendi bréf til Cromwell Rugs þann 23. desember síðastliðinn og greindi frá athugasemdum sem henni barst um viðskiptahætti félagsins vegna auglýsinga „sem birtar voru ítrekað í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu“.

Stofnunin óskaði eftir sönnun á auglýstu upprunalegu verði tólf tilgreindra teppa sem auglýst voru á lækkuðu verði þann 21. nóvember. Neytendastofa vísaði einnig til þess að félagið hafi ekki birt upplýsingar um afsláttarverð framangreindra teppa í sömu auglýsingu.

Í þriðja lagi vísaði Neytendastofa til þess að auglýsingar Cromwell Rugs í október hafi borið yfirskriftina „KRÍSU-ÚTRÝMINGARSALA“ ásamt því að auglýsa að heildsalan væri aðeins opin almenningi í níu daga. Félagið hafi svo birt fimm auglýsingar í Morgunblaðinu í desember með sömu yfirskrift. Í auglýsingum frá 4. og 5. desember hafi eftirfarandi jafnframt komið fram:

„RESTAR, SÍÐUSTU TEPPIN - ENN MEIRI AFSLÁTTUR, ALLT VERÐUR AÐ SELJAST! ÞAR SEM ÞAÐ ER LÍTIÐ EFTIR ÞÁ ER ÞAÐ FYRSTUR KEMUR FYRSTUR FÆR.“ Í auglýsingum frá 11. og 12. desember hafi síðan eftirfarandi verið birt: „AÐEINS ÞESSA HELGI. STÓR HELGI. ALLT Á AÐ SELJAST! ÆTLUM AÐ SELJA ALLAR BIRGÐIRNAR. AÐEINS ÞESSA HELGI. FÁÐU DRAUMA TEPPIÐ Á DRAUMAVERÐINU! LÆKKUM VERÐIÐ ENN MEIRA.“ Þá hafi eftirfarandi komið fram í auglýsingu frá 21. desember 2021: „VIÐ HÖFUM LOKSINS FENGIÐ TEPPIN OKKAR ÚR TOLLINUM! NÚ OPNUM VIÐ VÖRUHÚSIÐ FYRIR ALMENNING Í AÐEINS 3 DAGA! MARGIR ÍSLENDINGAR HAFA KEYPT DRAUMATEPPIÐ HJÁ OKKUR. EN ÞÚ?“

Í ákvörðuninni segir að í framhaldi af erindi stofnunarinnar var tekin ákvörðun um að fresta frekari meðferð málsins hvað varðar athugasemdir í tengslum við fyrra verð þar til úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála lægi fyrir í öðru máli gegn Cromwell Rugs þar sem fjallað var um fyrra verð.

Komst að samkomulagi við tollstjóra

Cromwell Rugs svaraði Neytendastofu þann 10. janúar. Félagið bendir á að í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé kveðið á um að fyrirtæki sem selji vörur og þjónustu til neytenda skuli merkja vöru sína og þjónustu með verði eða sýna það á áberandi stað á sölustaðnum. Telur félagið að það samkvæmt orðanna hljóðan gildi ákvæðið einungis um verðmerkingar á sölustað en nái ekki til auglýsinga.

Hvað varðar að tekið sé fram endanlegt verð vöru, taldi Cromwell Rugs að auglýsing félagsins væri ekki kjarnadæmi um það sem ákvæði laganna væri ætlað að stöðva og að ekki beri að líta á ákvæðið um endanlegt verð sem blátt bann við því að vara sé seld án þess að verð sé tilgreint. Teppasalinn vísaði svo til þess að í Morgunblaðinu þann 21. desember 2021 hafi mátt finna níu dæmi um að vörur væru auglýstar án þess að verð hafi komið fram.

Í auglýsingum félagsins frá 4. og 5. desember var fullyrt að síðustu teppin væru til sölu og að allt ætti að seljast. Teppasalinn segir að þessi fullyrðing hafi verið að öllu leyti rétt en áður en verslunin opnaði hafi félagið flutt inn einn gám af teppum. Í byrjun október hafi tollstjóri haldlagt annan gám vegna ágreinings félagsins við stofnunina um innflutningsverðmæti gámsins. Verulega hafi gengið á lager félagsins á meðan og óvíst hvort verslunin myndi halda áfram. Fullyrðingarnar hafi því verið byggðar á réttum upplýsingum að mati teppasalans.

Sala næstu daga dugði þó ekki til að rýma lager félagsins og því var vöruhúsið opnað aftur og auglýsingar birst þess efnis 11. og 12. desember. Þar var fullyrt að allt ætti að seljast þá helgi enda hafi staðið til að loka versluninni ef haldlagning gámsins yrði ekki aflétt af tollstjóra.

Nokkrum dögum síðar hafi félagið og tollstjóri komist að samkomulagi um uppgjör aðflutningsgjalda og haldlagningu gámsins aflétt. Í kjölfar þess hafi þann 21. desember birst auglýsing þar sem fullyrt hafi verið að félagið hefði loks fengið teppin úr tollinum og tilkynnt um að vöruhúsið hefði verið opnað aftur í tiltekinn tíma.

Cromwell Rugs telur þessa tímalínu styðja að félagið hafi ekki haldið því ranglega fram að teppi félagsins yrðu fáanleg í stuttan tíma. Aldrei hafi verið kveðið á um lokadaga útsölunnar eða álíka heldur hafi verið vísað til þess að vöruhús félagsins yrði opið í tiltekinn tíma, sem og var gert, en að þeim tíma loknum hafi vöruhúsið verið lokað almenningi. Ekki hafi verið ljóst á tímabilinu hvert framhald rekstrar félagsins yrði í ljósi máls sem hafi verið til meðferðar hjá Tollstjóra.

Hættu við að flytja til Akureyrar

Neytendastofa féllst þó ekki á þá fullyrðingu að aldrei hafi verið kveðið á um lokadaga útsölunnar enda hafi komið í fram í auglýsingum í desember og síðar í janúar „aðeins þessa helgi“, „aðeins í þrjá daga“, „tveir dagar eru eftir“ og annað slíkt.

Í auglýsingum félagsins 15. og 16. janúar sama ár hafi verið tekið fram að vöruhúsið væri opið almenningi í tvo daga til viðbótar og að vöruhúsið myndi síðan flytja til Akureyrar. Þrátt fyrir það hafi vöruhúsið opnað að nýju í Víkurhvarfi helgina 22. og 23. janúar sama ár.

Í seinna bréfi Cromwell Rugs þann 10. mars svarar félagið athugasemd Neytendastofu varðandi opnunartímann og segir að upplýst hafi verið að verslunin hafi ekki verið opin að staðaldri.

„Að lokinni hverri opnun sé tekin ákvörðun um hvort opna eigi verslunina aftur síðar og sé það þá sérstaklega auglýst. Stundum líði ein vika milli opnana en stundum lengri tími, t.d. tvær vikur eða meira. Fyrir hverja opnun sé starfsmönnum flogið til landsins og því fylgi umtalsverður kostnaður. Dragist sala á teppunum verulega saman sé fyrirséð að verslun félagsins yrði lokað. Yfirlýsing í auglýsingum félagsins þess efnis að verslunin sé opin almenningi í „aðeins 3 daga“ sé því sannleikanum samkvæm,“ segir í bréfi teppasalans.

Um miðjan janúar hafi staðið til að loka versluninni í Reykjavík og opna verslun á Akureyri. Samningar hafi hins vegar ekki náðst við staðarblöð um auglýsingar og því hafi verið hætt við opnunina. Forsendur flutninganna hafi því brostið og ákveðið var að opna aftur í Reykjavík.

„Fullyrðingar félagsins í umræddum auglýsingum hafi verið byggðar á bestu mögulegu upplýsingum á þeim tíma og voru settar fram í góðri trú.“

„Að endingu sé rétt að taka fram að félaginu hafi ekki borist neinar kvartanir frá viðskiptavinum. Viðskiptavinum hafi boðist að skila teppum gegn endurgreiðslu og að ekki einn viðskiptavinur hafi notfært sér þennan rétt sinn. Sú þjónusta sem félagið hafi veitt sé neytendum þóknanleg, enda sé verið að bjóða fram gæðavöru á lægra verði en gengur og gerist á Íslandi,“ segir í lok seinna bréfs teppasalans til Neytendastofu.