Nova kvartaði til Neytendastofu vegna auglýsingar Símans á mánaðarverði ADSL þjónustuleiða fyrirtækisins. Auglýsingarnar væru villandi þar sem í þeim væri ekki greint frá mikilvægum kostnaðarliðum sem hefðu áhrif á endanlegt verð þjónustunnar, á borð við stofngjald, leigu á beini, línugjald og heimasímaáskrift.

Neytendastofa taldi að ekki yrði séð að Síminn færi rangt með mánaðarverð ADSL þjónustuleiðanna, segir á vefsíðu Neytendastofu. „Neytendur gætu ýmist komist hjá því að greiða umrædda kostnaðarliði eða keypt búnað af öðrum en Símanum. Þá hefði Síminn einnig gert fullnægjandi ráðstafanir til að gera upplýsingar um kostnaðarliðina aðgengilegar á heimasíðu Símans.“ Taldi Neytendastofa því ekki ástæðu til að aðhafast vegna auglýsingarinnar.