Neytendastofa hefur tekið þá ákvörðun að Allianz á Íslandi hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins með dreifibréfi þar sem kynnt er raunávöxtun viðbótalífeyrissparnaðar.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en í dreifibréfinu var borin saman raunávöxtun nokkurra viðbótarlífeyrissjóða síðustu átta ár.

„Að mati Neytendastofu er samanburðinn villandi og því brot á ákvæðum laganna þar sem tekin var saman ein meðalávöxtun fyrir alla sjóði Kaupþings Vista annars vegar og alla sjóði Kaupþings Lífeyrisauka hins vegar. Þá hafi útreikningar Allianz ekki verið réttir,“ segir á vef stofnunarinnar.

Þó kemur fram í úrskurði málsins að Neytendastofa telur umfang brotsins ekki þess eðlis að ástæða sé til að beita sektarákvæðum auk þess sem upplýsingar skorti frá Kaupþingi. Af sömu ástæðu telur stofnunin ekki ástæðu til að krefjast þess að Allianz birti leiðréttingar eða nýjar auglýsingar enda verður ákvörðun þessi birt á opinberum vettvangi.

Sjá nánar á vef Neytendastofu.