Verðlagseftirlit ASÍ hefur undanfarið sætt gagnrýni fyrir aðferðafræði við framkvæmd verðlagskannanna . Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að því að ekki sé tekið tillit til áhrifa gengisbreytinga þegar samanburður er gerður á verðum á milli tveggja tímapunkta. Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir vinnubrögð verðlagseftirlitsins vera villandi og niðurstöður verðkannana vera rangar.

Í maí birti verðlagseftirlitið verðkannanir sem miðuðu að því að greina hvort áhrif lækkana á vörugjöldum hefðu skilað sér til neytenda, en niðurstaða eftirlitsins var að svo væri ekki. Viðskiptaráð beindi gagnrýni að verðlagseftirlitinu vegna mælinganna til ASÍ í maí síðastliðnum, auk Ormsson og Samsung setursins.

Beindist gagnrýnin meðal annars að því að gengisáhrif hefðu ekki verið könnuð auk þess sem mælingarnar tækju yfir tímabil sem gæfi ekki rétta mynd af því hvort lækkun vörugjalda hefði skilað sér út í verðlag. Því væri ekki hægt að álykta sem svo að lækkun vörugjalda hefði ekki skilað sér til neytenda. ASÍ brást ekki við þeirri gagnrýni og var hún því ítrekuð.

Tilefnislaust að meta gengisáhrif

„Verðlagseftirlitið tekur ekki tillit til áhrifa gengis við samanburð frá mælingu A til B," segir Kristjana Birgisdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ. Aðspurð hvort gagnrýni sem hafi beinst að verðlagseftirlitinu sé réttmæt segir hún svo ekki vera.

„Niðurstöður okkar eru að sjálfsögðu ekki rangar. Ef ég geri mælingu í desember á vöru sem kostar 100 krónur, sem kostar 105 krónur núna, þá er hún búin að hækka í verði þrátt fyrir að gengi hafi hækkað. Ég er bara að skoða endapunktinn fyrir neytandann. Neytandinn er ekkert að velta því fyrir sér hvort að dollarinn hafi styrkst á þessu tímabili. Hann finnur bara fyrir því að hann þarf að borga meira fyrir vöruna," segir Kristjana.

„Verðlagseftirlitið er sjálfstætt í vinnu sinni. Það má ítreka það að við höfum hag neytenda að leiðarljósi, ekki hag verslana," segir Kristjana jafnframt.