Erfið fjárhagsstaða ýmissa sveitarfélaga er látin bitna á hreppsbúum af fullum þunga með hækkun opinberra gjalda langt umfram verðlagshækkanir síðasta árs.  Í sumum tilvikum er hækkun rúmlega tvöfalt meiri, að sögn greiningardeildar Arion banka sem skrifar um verðbólgutölur sem komu á óvart í morgun.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði visitala neysluverðs um 0,28% síðan í desember og rauk verðbólga við það úr 5,3% i 6,5%. Enginn greiningaraðili hafði spáð jafn mikilli verðbólgu enda hafa slíkar tölur ekki sést í um tvö ár.

Greiningardeildin setur þann varnagla við fyrri verðbólguspá sína að mögulega hafi með nokkurri vissu hægt að áætla hversu sterk áhrifin yrðu af hækkunum ríkisins í mánuðinum. Hins vegar hafi verið meiri óvissa um áhrif af hækkunum sveitarfélaga.

Deildin bendir á að verðskrá hins opinbera, hiti, rafmagn, sorp, vatn, holræsagjöld og félagsleg þjónusta (leikskólagjöld og dagmæður) hækkað á bilinu 0,1 til 0,2% í janúar. Hækkunin nú er talsvert meiri.

Verðbólgan mikil aðeins lengur

Greiningardeild Arion banka segir að miðað við þetta sé útlit fyrir umtalsverða verðbólgu á næstu mánuðum, ekki síst þar sem útsöluahrif munu ganga til baka og fleiri þjónustuliðir hækka. Þá eigi enn eftir að tilkynna um hækkun á mjólkurvörum ásamt þvi sem áhrif af veiku gengi krónunnar muni halda afram að skila sér út í verðlagið. Af þeim sökum muni verðbólga haldast hærri en vonir stóðu til. Greiningardeildin hafði reiknað með að draga myndi úr verðbólgu í apríl og hún þá fara undir sex prósentin. Deildin færir væntingar sínar nú aftur til maí.