Formaður Neytendasamtakanna leggur til að neytendur geymi kvittanir frá Íslandspósti (ÍSP) vegna afgreiðslna sendinga frá útlöndum. Fjárhæð gjaldsins vegna sendinga utan Evrópu verður flatt óháð því hvort sendingarríki sé skilgreint þróunarríki eður ei.

ÍSP tilkynnti fyrir síðustu helgi að frá og með 3. júní myndi 400 króna sendingagjald leggjast á allar sendingar frá Evrópu og helmingi hærra gjald á sendingar utan Evrópu. Samkvæmt samkomulagi Alþjóðapóstsambandsins UPU ber rekstrarleyfishöfum í viðtökuríki að standa skil á kostnaði við afhendingu póstsendingar en viðtökuríkið getur síðan gert endurkröfu á sendingarríkið. Sú endurgreiðsla er mishá eftir því hvort ríki flokkast sem þróað ríki eða þróunarríki.

Í kjölfar aukinnar netverslunar hefur sendingum hingað til lands fjölgað til muna og hefur því ítrekað verið haldið fram af hálfu ÍSP að kostnaður vegna þeirra, og þá sérstaklega svokallaðra „Kínasendinga“ en Kína er flokkað sem þróunarríki, sé að sliga fyrirtækið. Varð það til þess að lagabreyting var samþykkt í vor sem heimilaði ÍSP að velta þessum kostnaði yfir á neytendur.

„Ástæðan fyrir þessari lagabreytingu voru Kínasendingarnar og allt í einu er gjaldið lagt á allar sendingar. Það er alveg út í hött. Þess í stað hefði átt að ráðast á rót vandans með því að taka til í rekstri ÍSP,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Samkvæmt tilkynningu ÍSP nam tap af erlendum sendingum 920 milljónum í fyrra. Tap af rekstri alþjónustu, sem erlendar sendingar undir 20 kílógrömmum flokkast sem, varð hins vegar 1.164 milljónir. Frá því má gagnálykta að rúmlega 240 milljóna tap hafi verið af samkeppnisrekstri ÍSP á innanlandsmarkaði

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .