Vísitala sem sýnir tiltrú neytenda í Bandaríkjunum (e. Consumer confidence) lækkaði þvert á spár markaðsaðila. Búist hafði verið við því að vísitalan myndi hækka milli mánaða úr 67,5 í 68 en niðurstaðan var lækkun niður í 59,6 stig. Bent er á það í Morgunpósti IFS Greiningar að þrátt fyrir þessar fréttir hafi gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum hækkað í gær.

Líkleg ástæða fyrir hækkandi gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum eru jákvæðar fréttir af gangi fasteignamarkaðar vestanhafs. Sala á nýbyggingum hefur ekki verið betri tvo mánuði í röð síðan 2008. Fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur tekið við sér á liðnum mánuðum en hagfelld fjármögnun íbúðarkaupa og jákvæðar horfur í atvinnumálum er líkleg ástæða fyrir þessari þróun, að því er segir í Morgunpóstinum.