Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, eigandi Sports Direct á Íslandi, segir það lélegt hjá kaupmönnum að ætlast til þess að fólk flykkist í verslanir sínar af góðmennskunni einni. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu gerir Sigurður Pálmi nýja herferð Samtaka verslunar og þjónustu að umfjöllunarefni, en í herferðinni er fólk hvatt til að versla á Íslandi fyrir jólin.

Sigurður segir verslun á Íslandi því miður illa rekna, eins og hafi komið fram í skýrslu McKinsey, sem kynnt var á dögunum.

„Það er því sorglegt að sjá kaupmenn biðja neytendur að versla hjá sér á þeirri forsendu að það sé svo gott fyrir íslenskan efnahag, þegar þeir eru í raun og veru bara að biðja neytendur um að niðurgreiða óhagkvæman verslunarrekstur þeirra. Íslenskir kaupmenn ættu heldur að draga saman seglin, einfalda og hagræða í rekstri, hætta að borga í SVÞ og leyfa neytendum að njóta góðs af sparnaðinum af lægra vöruverði. Ég hvet því íslenska neytendur til að versla þar sem það er hagstæðast fyrir þá, hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar, og nota sparnaðinn t.d. í tónlistarnám fyrir börnin sín. Þetta er eina leiðin til að lækka vöruverð á Íslandi.“