Netverslun ætlar að vera meira áberandi í ár heldur en fyrir síðustu jól samkvæmt niðurstöðum úttektar Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Vísbendingar eru um að netverslun Íslendinga hafi aukist um sem nemur 50 til 80% milli ára, ef tekið er mið af söluverði. Neytendur virðast kaupa fleiri eða dýrari vörur í hverri pöntun en samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti þá hefur pakkasendingum fjölgað um 30% milli ára.

Í úttektinni kemur einnig skýrlega fram að neytendur kjósi í auknu mæli að versla við innlendar netverslanir fremur en erlendar og að hlutdeild þeirra fari vaxandi. Aukninguna má að mestu rekja til aukins vöruframboðs netverslana og nýjunga í greiðslukerfi þeirra þar sem m.a. er gefinn kostur á því að dreifa greiðslum og jafnvel að greiða með debetkortum.

Verslanir merkja að neytendur séu seinna á ferðinni með jólainnkaupin í ár en síðasta ár. Slæmt veður og færð eru hugsanlegar skýringar en einnig hefjast ný kortatímabil seinna í ár en í fyrra.