Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis eru gengisbundnu lánin til fólks gagnrýnd og þau sögð hafa verið alltof mikil og aukið á skuldsetningu heimilanna. M.a. er vitnað til ummæla Ingólfs Ingólfssonar fjármálaráðgjafa hjá Fjármálum heimilanna ehf. frá árinu 2007. Þá sagði Ingólfur.

„Sá sem vill eignast sem mest sem skjótast á hiklaust að taka erlent húsnæðislán [...] Þessi teoría [um að gengistryggðu lánin séu varasöm innsk. blm.] gengur bara ekki upp í vaxtaumhverfinu á Íslandi. Við erum að borga nú þegar í dag 5% vexti og 7% verðtryggingu og verðtryggingin er ekkert annað en vextir sem leggjast á höfuðstólinn. Þannig að áhættan af því að taka erlend lán er sáralítil."

Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar er einnig vitnað til ummæla Vilhjálms Bjarnasonar, lektors við Háskóla Íslands og forsvarsmanns Samtaka fjárfesta.

Hann lét hafa eftir sér: „Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni."

Um þetta segir í skýrslu Rannsóknarnefndar: „Árið 2007 var því nægt framboð af „fjármálaráðgjöfum" utan bankanna sem hvöttu fólk heils hugar til erlendrar lántöku. Í Fjármálastöðugleika 2008 sem Seðlabankinn gaf út kemur fram að í lok árs 2004 hafi 4,5% útlána banka til heimilanna verið gengisbundin en hlutfallið var komið í 23% í mars 2008."

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.