Svo virðist sem ásakanir á hendur Toyota um að  bilanir í rafeindabúnaði í bensíngjöf hafi orsakað þúsundir óhappa og slysa í Bandaríkjunum séu byggðar á fölskum forsendum. Það er niðurstaða í fyrstu bráðabirgðaskýrslu bandaríska umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA (National Highway Traffic Safety Administration) sem rannsakað hefur Toyotabíla sem lent hafa í slysum vegna þessa en lokaskýrslu er að vænta á næsta ári.

Samkvæmt frétt The Detroit News fékk NHTSA til úrvinnslu um þrjú þúsund frásagnir Toyotaökumanna sem lýstu því hvernig bensíngjöf bíla þeirra hafði orðið föst í botni og bíllinn orðið óviðráðanlegur og ætt áfram. Talið var að um það bil 90 dauðsföll í Bandaríkjunum mætti rekja til þessara bilana eða galla. Toyota innkallaði 9,4  milljónir bíla um allan heim í kjölfarið, þar af 7,5 milljónir bíla í Bandaríkjunum.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum verið ólatir að greina frá vandræðum Toyota sem hefur forystunni í bílabransanum af bandarísku bílarisunum. NHTSA studdist við upplýsingar sem hægt var að ná út úr svörum kössum í Toyotabílunum sem skráir  ýmsa þætti í ökuferli bílanna.

Skemmst er frá að segja að í 35 af 58 tilfellum sem rannsökuð hafa verið er niðurstaðan sú að ökumenn stigu aldrei á bremsuna. Í 14 tilvikum tylltu menn aðeins lítillega á bremsuna, í einu tilfelli hindraði motta að hægt væri að bremsa og í einu tilviki var stigið samtímis á bremsu og bensíngjöf.

Alls er NHTSA búin að rannsaka 4.000 bíla. Í engum þeirra hefur fundist galli í vélbúnaði eða hugbúnaði sem gæti hafa orsakað stjórnlausa eldsneytisinngjöf. Á hinn bóginn hafa fundist inngjafarfetlar sem hafa bognað eða skekkst og einnig hafa fundist tilfelli þar sem bensínfetlar hafa þvælst undir gólfmottur og orðið þar fastir í inngjöf. Þetta síðastnefnda var lagfært í milljóna bíla innköllun Toyota. Fleiri rannsóknir hafa reyndar verið í gangi af hálfu NHTSA á Toyota bílum, m.a. á stýrisbúnaði Toyota Hilux og hefur Toyota mátt sæta gríðarlegum sektum.