Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) tilkynnti í gær um krónubréfaútgáfu að nafnvirði fimm milljarða króna, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Bréfin eru viðbót í flokk krónubréfa með gjalddaga í september 2008 og telur stærð flokksins 18 milljarða króna. með viðbótinni í gær. Athygli vekur að gengi krónu lækkaði í kjölfar fréttanna, öfugt við það sem oftast gerist þegar tilkynnt er um krónubréfaútgáfu. Tíðindin virðast því ekki hafa náð að stappa stálinu í fjárfesta í gær, en hins vegar hefur krónan styrkst töluvert það sem af er deginum í dag,? segir greiningardeildin.

Hún segir að það sem af er september hafa krónubréf að nafnvirði 22,5 milljarðar króna fallið á gjalddaga auk vaxta. Þá er stór gjalddagi framundan 20. september þegar 60 milljarðar króna auk vaxta falla á gjalddaga. Í síðasta mánuði voru gefin út krónubréf að nafnvirði 55 milljarðar króna og má ætla að hluti þeirrar útgáfu hafi verið framlenging þeirra bréfa sem eru á gjalddaga í mánuðinum.

?Útgáfa NIB í gær er hins vegar fyrsta útgáfan í þessum mánuði. TD Securities er umsjónaraðili útgáfunnar, sem styður við þá skoðun okkar að um framlengingu sé að ræða, enda hefur það fyrirtæki verið atkvæðamikið í umsjón með krónubréfaútgáfum og haft talsvert frumkvæði í að leiða saman útgefendur og kaupendur. Útistandandi krónubréf nema nú um 423 milljarðar króna alls að nafnvirði," segir greiningardeildin.