Norræni fjárfestingabankinn (NIB) tilkynnti í morgun um útgáfu krónubréfs fyrir þrjá milljarða króna að nafnvirði, segir greiningardeild Glitnis.

?Bréfið er til eins árs og ber 12,75% vexti, en til samanburðar eru tólf mánaða peningamarkaðsvextir nú 13,75%. Fyrir á bankinn eina útgáfu að nafnvirði þrjá milljarða króna með gjalddaga í september á næsta ári.

Erlendir aðilar hafa ekki gefið út krónubréf undanfarinn einn og hálfan mánuð og virðist sem ákveðin mettun hafi orðið á þeim markaði eftir líflega útgáfuhrinu á haustdögum. Heildarupphæð útistandandi krónubréfa er nú tæpir 263 milljarða króna sem jafngildir tæpum fjórðungi af vergri landsframleiðslu ársins samkvæmt áætlun okkar,? segir greiningardeildin.

Það er sterkt samband milli krónubréfaútgáfu og gengis krónu. ?Mat okkar á skammtímaáhrifum útgáfunnar bendir til þess að fyrir hvern milljarð sem gefinn er út styrkist króna um 0,1% áður en næsti viðskiptadagur er liðinn.

Samkvæmt því mætti eiga von á að króna styrktist eitthvað í dag og nemur styrking dagsins 0,7% þegar þetta er ritað. Þó ber að hafa í huga að króna hefur verið í styrkingarfasa undanfarna daga,? segir greiningardeildin.

Hún segir að erfiðara sé að segja til um sambandið til lengri tíma en þó virðast þessar stærðir sveiflast í líkum takti.