Tap Norræna fjárfestingarbankans (NIB) vegna íslenska bankahrunsins nemur um 75 milljónum evra, sem jafngildir tæpum 12 milljörðum íslenskra króna. Um stærsta tap í sögu fjárfestingarbankans í einu landi er að ræða. Þetta er haft eftir Henrik Normann, bankastjóra NIB, í Morgunblaðinu í dag.

Líkt og greint var frá á VB.is fékk Isavia fimm milljarða króna lán frá NIB fyrir skömmu, vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Lánið er það fyrsta sem NIB veitir til Íslands án ríkisábyrgðar frá efnahagshruninu. Henrik segir í Morgunblaðinu að með batnandi efnahagsástandi á Íslandi opnist frekari tækifæri til lánveitinga.

Tap NIB vegna hrunsins orsakaðist fyrst og fremst vegna lánsfjármögnunar til íslensku bankanna. Henrik útilokar þó ekki samstarf við bankana í framtíðinni. Gjaldeyrishöftin setji þó strik í reikninginn eins og sakir standa, en til lengri tíma geti íslensku bankarnir verið góðir samstarfsaðilar.