Norræni fjárfestingarbankinn hefur veitt Landsvirkjun 50 milljón Bandaríkjadala langtímalán til að fjármagna  Þeistareykjavirkjun. Láninu, sem er til 16 ára, er ætlað að fjármagna fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar í grennd við Húsavík. Í fyrsta áfanganum verða tvær 45 MW vélasamstæður settar upp. Áætlað er að hægt sé að framleiða allt að 200 MW af raforku ár hvert.

Í tilkynningu segir að síðar muni Þeistareykjavirkjun auka framleiðslu á raforku á landsvísu um 4% og mun hún fyrst og fremst anna orkuþörf kísilmálmverksmiðjunnar sem verið er að reisa við Húsavík. Þriðjungur raforkunnar er ætlaður Húsavíkur- og Akureyrarbæ og öðrum iðnaði á svæðinu.

Landsvirkjun er í eigu íslenska ríkisins og er stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi. Fyrirtækið nýtir endurnýjanlega orkugjafa til þess að framleiða um 70% af allri raforku sem notuð er á landinu.