Eignarhaldsfélagið NIBC Holding, eigandi hollenska bankans NIBC, tilkynnti í gær að það hefði afskrifað 300 milljónir evra af verðbréfum tengdum bandarískum húsnæðislánum, til viðbótar við fyrri afskriftir af samskonar eignum.

Jafnframt tilkynnti félagið að það hefði gefið út 400 milljónir evra í nýju hlutafé á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en gaf ekki upp frekari upplýsingar varðandi hlutafjáraukninguna. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Í lok janúar á þessu ári hætti Kaupþing við að kaupa NIBC banka fyrir 3 ma. evra vegna óstöðugleika á fjáramálamörkuðum. Í kjölfarið sagði NIBC að hluthafar þess myndu leggja fram 300 milljónir evra í hlutafé til stuðnings lánshæfiseinkunnum bankans sem matsfyrirtækið Fitch lækkað í desember.