Ólögmæt gengistryggð lán færast niður um 20 til 30 prósent vegna niðurstöðu Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka, samkvæmt útreikningum Veritas ráðgjafar. Guðmundur Ingi Hauksson, verkfræðingur hjá Veritas, segir dóminn afar skýran um það hvernig skuli endurreikna ólögmæt gengislán.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki er hægt að reikna vexti af ólögmætum gengislánum afturvirkt eins og svokölluð Árna Páls-lög kváðu á um.

Guðmundur Ingi segir það ekki skipta máli hvort lán hafi verið í vanskilum á tímabilum eða ekki hafi lánin verið á annað borð greidd. Ef lán hafi hins vegar verið í vanskilum í lengri tíma og sé það enn þá hafi dómurinn og fordæmisgildi hans lítið gildi.

„Í mínum huga er stóra myndin sú að bankarnir þurfa að endurreikna öll þau lán að nýju sem áður voru endurreiknuð. Að okkar mati hefur dómurinn í gær það mikið fordæmisgildi að bankarnir ættu tafarlaust að ráðast í þá vinnu,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að útreikningarnir hafi mikið að segja fyrir hagkerfið allt.