Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, svarar í Fréttablaðinu í dag hugmyndum um almenna niðurfellingu skulda almennings. Þórarinn segir að þótt ýmsar leiðir hafi verið nefndar sé raunin sú að á endanum muni íslenskir skattgreiðendur bera kostnaðinn.

Fyrst er nefnd sú leið að eigendur lánanna, lánastofnanir, færi skuldirnar niður með afskrift. Þórarinn bendir á að þar sem skattgreiðendur eru að stærstum hluta eigendur þessara lána (í gegnum eign sína á Íbúðalánasjóði og Landsbankanum) muni þeir bera stærstan hluta kostnaðarins þar sem gengið verði á eigið fé lánastofnana.

Þá hefur verið talað um að Seðlabankinn prenti peninga fyrir upphæðinni og færi þannig niður skuldir almennings án þess að nokkur kostnaður hljótist af. En málið er ekki svo einfalt og bendir Þórarinn á að peningar sem Seðlabankinn býr til eru skuldbinding á skuldahlið bankans sem hafa enga eign til mótvægis. Það þýði að ganga þurfi á eigið fé bankans og þar sem Seðlabankinn er í eigu skattgreiðenda sé rýrnun eiginfjár hans ekki annað en reikningur til skattgreiðenda.

Þórarinn fjallar einnig um þá hugmynd að búið verði til eignarhaldsfélag í eigu Seðlabankans, niðurfærslan færð sem tap þar og rýri því ekki eigið fé bankans. Þórarinn bendir á að þetta komi niður á sama stað enda komi niðurfærslan fram sem eign á efnahagsreikningi bankans, eign bankans í félaginu, en félagið verði einskis virði enda eigið fé þess neikvætt sem jafngildi niðurfærslunni.

Þórarinn segir að lokum ljóst að almenn skuldaniðurfelling til allra sé ómarkviss aðgerð og muni stór hluti hennar helst nýtast þeim sem lítið þurfa á henni að halda. Niðurfærsla sé mjög kostnaðarsöm og muni íslenskir skattgreiðendur að lokum bera þann kostnað og segir Þórarinn það villandi og óábyrgt að öðru sé haldið fram.

Grein Þórarins G. Péturssonar