*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 8. janúar 2021 19:01

Niðurfellingin kunni að vera brot

Að mati Samkeppniseftirlitsins eru vísbendingar um að ákvörðun Póstsins kunni að fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Jóhann Óli Eiðsson
Eva Björk Ægisdóttir

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur fallist á beiðni Íslandspósts (ÍSP) um að félaginu sé heimilt að hætta að bjóða viðbótarafslátt á magnsendingum bréfa. Breytingin bætist við 15% hækkun gjaldskrár sem tók gildi núna um áramótin en hún getur þýtt á bilinu 20-40% hækkun á kostnaði við sendingu bréfa. Breytingin tekur gildi um næstu mánaðamót.

Við meðferð málsins var umsagnar Samkeppniseftirlitsins (SKE) meðal annars leitað. Að mati SKE voru komin „fram sjónarmið um að ákvörðun ÍSP um niðurfellingu viðbótarafslátta kunni að fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu ÍSP“. Þar sem úrlausn þess álitaefnis byggðist ekki á lögum um póstþjónustu, heldur samkeppnislögum, taldi PFS „ekki þörf á því að víkja frekar að [því] álitaefni“.

Að mati PFS var ekki lengur heimild til að krefja ÍSP um kostnaðargreiningu af hagræði af breytingunum. Stofnunin taldi að fullnægjandi rök hefðu komið fram um að kostnaðarbókhald félagsins styddi ekki lengur við umfang afsláttanna. Beiðni ÍSP hafði verið send í mars 2020 en PFS tók bráðabirgðaákvörðun síðasta haust um að fresta gildistökunni, með vísan til samkeppnissjónarmiða, þar til niðurstaða lægi fyrir.

Stikkorð: Íslandspóstur