Til viðbótar við hefðbundnar vaxtabætur á árinu mun ríkið niðurgreiða vexti sem fólk þarf að greiða af íbúðalánum vegna húsnæðis til eigin nota. Ákvörðun á niðurgreiðslunni mun liggja fyrir við álagningu 1. ágúst en á morgun 1. maí verður helmingur áætlaðrar niðurgreiðslu greiddur fyrirfram. Þar sem 1. maí ber uppá sunnudag hafa væntanlega flestir sem eiga rétt á greiðslu fengið hana inn á reikning sinn í gær, föstudag.

Við útreikning á fyrirframgreiðslunni  nú 1. maí  er höfð hliðsjón af skattframtali 2011 og fyrirliggjandi upplýsingum um tekjur, eignir og skuldir. Vaxtaniðurgreiðslan er 0,6% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok 2010 og 2011 samkvæmt skattframtölum 2011 og 2012.

Vaxtaniðurgreiðslan getur að hámarki orðið 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðu foreldri. Vaxtaniðurgreiðslan er ekki tekjutengd, en skerðist miðað við heina eign (eignir að frádregnum skuldum). Skerðing hjá einstaklingi byrjar við nettóeign tíu milljónir króna og fellur niður þegar eignin nær tuttugu milljónum króna. Skerðing hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðum foreldrum byrjar við nettóeign fimmtán milljónum kr. og fellur niður þegar eignin nær þrjátíu milljónum kr.