Niðurgreiðslur til sjávarútvegs innan Evrópusambandsins eru umtalsverðar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við ESB og þróun þess segir að erfitt sé að meta umfangið. Sjávarverndarsamtökin Öceana hafi metið að niðurgreiðslurnar nemi a.m.k.  3,3 milljörðum evra, þær séu beinar eða óbeinar greiðslur úr opinberum sjóðum sem stuðli að því að gera sjávarútveg hagkvæmari en raunin er. Niðurgreiðslurnar eru sagðar jafngilda um 50% af verðmæti landaðs afla. Áhrif niðurgreiðslna koma fram í ofveiði, offjárfestingu í fiskiskipum, óhagkvæmni og að mögulegum efnahagslegum ávinningi auðlindarinnar verði ekki náð.

Skýrslan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun kynna hana á Alþingi á morgun.

Flestir fá niðurgreitt eldsneyti

Í skýrslunni segir í þeim hluta sem fjallar um sjávarútvegsmál að flestir ef ekki allir skipaflotar innan ESB fái niðurgreitt eldsneyti. Tekið er fram að samkvæmt upplýsingum Oceana nemi niðurgreiðslur vegna eldsneytiskaupa um 1,4 milljörðum evra.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir um sjávarúvegsstefnu ESB:

„Eitt af grundvallaratriðum í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er hugtakið hlutfallslegur stöðugleiki en það vísar til þess hvernig heildaraflakvótum er ráðstafað til aðildarlanda sambandsins. Í raun er um að ræða reglu sem kveður á um að við úthlutun heildarkvóta sé miðað við aflareynslu viðkomandi ríkja. Þessi regla hefur verið gagnrýnd þar sem hún þykir hvetja til þess að skammtímasjónarmið séu höfð til grundvallar við stjórnun fiskveiða auk þess sem sumir telja að hún brjóti í bága við grundvallarsjónarmiðið um sameiginlegan markað, sem eigi einnig að ná til nýtingar auðlinda sjávar og ætti því að vera öllum opin.“