Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu í nýju greiðsluþátttökukerfi. Kerfið tekur gildi 1. maí næstkomandi. „Nýtt kerfi ver fólk fyrir háum útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu,“ segir í frétt velferðarráðuneytisins .

Nýja greiðsluþátttökukerfið er jöfnunarkerfi sem hefur það meginmarkmið að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu, að því er kemur fram í fréttinni.

Á heildina lækkar hlutdeild sjúkratryggðra í heilbrigðiskostnaði í nýju kerfi, þar sem ríkið leggur fram aukna fjármuni til greiðsluþátttöku hins opinbera sem nemur 1,5 milljarði króna á ársgrundvelli.

Jafnframt eru sett þök á hámarksútgjöld fólks í nýju kerfi. Eftir að nýja kerfið tekur gildi munu aldraðir og öryrkjar greiða að hámarki 46.467 kr. á tólf mánaða tímabili. „Greiðslur sjúklings fyrir heilbrigðisþjónustu reiknast honum til afsláttar næst þegar hann þarf á þjónustu að halda. Lífeyrisþegi mun því aldrei greiða meira en 16.400 kr. á mánuði,“ segir einnig í fréttinni.