Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, segir að bandaríska ríkið hafi veitt Boeing flugvélaframleiðanda ólöglegar niðurgreiðslur að andvirði að minnsta kosti 5,3 milljarða dala. Það hafi leitt til ósanngjarns forskots yfir Airbus, helsta keppinaut Boeing.

Bandaríska ríkið hefur meðal annars veitt Boeing fjármagn í gegnum rannsóknastyrki. Airbus hefur haldið því fram að ríkisfjárveitingar til Boeing hafi skaðað félagið um 45 milljarða dollara á árunum 2002 til 2006 vegna minni sölu og lægra verðs.

Deilur milli Boeing og Airbus hafa staðið yfir í sex ár. Þannig hefur Airbus einnig verið sakað um að þiggja ríkisaðstoð frá evrópskum ríkisstjórnum, meðal annars með lánum á afar hagstæðum vöxtum. Í frétt Bloomberg segir að nýjasti úrskurður WTO gæti hvatt Bandaríkin og Evrópuríkin til þess að semja sín á milli vegna þessara tveggja stærstu flugvélaframleiðanda heims.