Hátt í 70 einstaklingar með 14 viðskiptahugmyndir tóku þátt í Startup Weekend sem fór í annað skiptið fram nú um helgina. Helginni lauk með afhendingu verðlauna fyrir bestu hugmyndina og varð verkefnið Lokunin hlutskarpast að þessu sinni. Fyrirtækinu er ætlað að selja bandvídd á niðurhali af netinu mun ódýrar en boðið er upp á í dag. Fyrir sigurinn hlaut verkefnið 200 þúsund króna verðlaun.

Í öðru sæti var fyrirtækið Broddur. Broddur er fæðubótardrykkur unninn úr broddmjólk. Slík mjólk er einstaklega næringarrík og minntu frumkvöðlarnir á að Jón Páll kallaði drykkinn á sínum tíma „náttúrulega stera“. Í þriðja sæti var ferðaþjónustufyrirtækið Healing Nature en aðstandendur þess vilja bjóða ferðamönnum upp á nudd og jóga í íslenskri náttúru.