Notendur iPhone, farsíma Apple, hafa halað niður símaforritum (e. applications) nærri tíu milljarða sinnum. Samkvæmt rannsókn fyrirtækisins Asymco eykst niðurhal stöðugt. Notendur sækja sér samtals um 30 milljónir símaforrita í hverjum mánuði.

Búist er við að 10 milljarða markið náist í þessum mánuði, eingöngu 31 mánuði eftir að iPhone kom á markað. Í greiningu Asymco segir að forritin geri það að verkum að notendur haldi sig við ákveðna símategund þar sem oft kostar að ná í forritin. Of kostnaðarsamt þykir að skipta um farsíma með öðru stýrikerfi þar sem sækja þarf öll forrit aftur.