Kosningaspá Washington Post spáir repúblikunum sjö sætum til viðbótar við núverandi þingmannafjölda. Mun það þýða að demókratar hafa þá hvorki meirihluta í efri né neðri deild bandaríska þingsins. Kosningarnar verða haldnar 4. nóvember næstkomandi.

Obama aldrei óvinsælli

Nái Repúblikanar meirihluta í báðum deildum þingsins er ljóst að það mun vera mikill ósigur fyrir Obama Bandaríkjaforseta. Hann þykir óvinsæll og hafa vinsældir hans farið dvínandi og mælast nú þær lægstu frá upphafi. Stjórnmálaskýrendur telja að óvinsældir Obama muni draga þrótt úr Demókrataflokknum og bægja kjósendum frá.

Helsta von Demókrata er að kosningaþáttaka þeldökkra Bandaríkjamanna verði mikil, en að öðrum kosti stefnir í „niðurlægjandi ósigur" þeirra í þingkosningunum samkvæmt New York Times. Kosningaþáttaka þeirra skipti sköpum þegar Obama var kjörinn forseti árið 2008 og aftur 2012.