Nokia ætlar að skera niður allt að 10 þúsund störf á næstu tveimur árum til að minnka kostnað og geta þá fjárfest meira í rannsóknarverkefni. Stefnir fjarskiptafélagið á að setja allt púður í að velgja sínum helstu samkeppnisaðilum, Ericsson og Huawei, undir uggum. Reuters greinir frá.

Pekka Lundmark, sem tók við forstjórastarfinu hjá Nokia á síðasta ári, hefur unnið að endurskipulagningu fyrirtækisins til að vinda ofan af mistökum fyrri stjórnenda þess sem höfðu skaðleg áhrif á fyrirætlanir er varða 5G lausnir.

Hann kynnti til leiks nýja stefnu í október í fyrra, þar sem fyrirtækinu er skipt niður í fjórar rekstrareiningar. Pekka kveðst ætla að gera allt sem í sínu valdi stendur til að ná forystu í 5G tækninni.

Búist er við að forstjórinn leggi spilin á borðið á fjárfestakynningu á fimmtudag. Þar muni hann kynna langtímastefnu sína, ræða aðgerðaplön sín og kynna fjárhagsleg markmið fyrirtækisins.