Lífskjör hafa versnað víða um heim síðan fjár- og skuldakreppan skall þar á árið 2008. Versti skellurinn varð á evrusvæðinu, samkvæmt niðurstöðum úttektar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

OECD segir landsframleiðslu sem hlutfall af mannfjölda á evrusvæðinu og ráðstöfunartekjur nú 4% minni en árið 2007. Staðan er verst á Grikklandi. TIl samanburðar benda svipaðir útreikningar til þess að Bandaríkjamenn hafi um síðustu áramót verið komnir á svipaðar slóðir og fyrir kreppu og aðeins betur. Landsframleiðsla og ráðstöfunartekjur eru nú 2% meiri en þær voru árið 2007.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal fjallar um málið og hefur upp úr skýrslu OECD að helsta ástæðan fyrir þessum mun á milli Bandaríkjanna og evrusvæðisins þær aðhalds- og niðurskurðaraðgerðir sem ráðist var í á evrusvæðinu. Skattahækkanir og frysting launagreiðslna hafi komið niður á kaupmætti fólks og aukið samdráttinn meira en í Bandaríkjunum.