Stjórnarandstaðan í Portúgal neitar að að styðja niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar sem voru lagðar fram til að koma í veg fyrir að landið þyrfti að sækja um neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu.

Minnihlutastjórn José Sócrates gæti því tapað atkvæðagreiðslu um málið í þinginu sem myndi líklega fella stjórnina og boðað yrði til kosninga. Búist er við því að kosið verði um tillöguna á morgun. Þetta kemur fram á vef FT.

Stórir gjalddagar eru á skuldum ríkisins á næstum mánuðum. Stjórnarkreppa myndi að öllum líkindum auka enn á lánsfjárvanda landsins en álag á 5 ára portúgölsk ríkisskuldabréf fór yfir 8% í dag, í fyrsta skipti síðan landið tók upp evruna árið 1999.

Fernando Teixeira dos Santos fjármálaráðherra landsins sagði í dag að pólitísk óvissa gæti valdið erfiðleikum við endurfjármögnun skulda ríkisins og gæti neytt landið til að óska eftir efnahagsaðstoð frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.