*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 20. febrúar 2020 17:02

Niðurskurður hjá SS

SS hagnaðist um 78 milljónir króna en 179 milljónir árið áður. Verri afkoma dótturfélaga skýri afkomuna. Þau hafa gripið til hagræðingaraðgerða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sláturfélag Suðurlands hagnaðist um 78 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn talsvert saman frá fyrra ári þegar hann nam 179 milljónum. Rekstrartekjur námu rúmlega 12 milljörðum króna en árið áður námu tekjurnar rúmlega 11,5 milljörðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu félagsins til Kauphallar Nasdaq á Íslandi.  

EBITDA afkoma var 727 milljónir króna en hún var 790 milljónir árið 2018. Í lok árs 2019 nam eigið fé SS 5,3 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 54%.

Í tilkynningunni segir að lakari afkoma skýrist af verri afkomu dótturfélaga, en afkoma þeirra versnaði um 97 milljónir milli ára. Þar segir jafnframt að gripið hafi verið til hagræðingaraðgerða sem áætlað sé að skili sér í bættri afkomu á þessu ári. Umrædd dótturfélög eru Reykjagarður hf. og Hollt og gott ehf.

„Þrátt fyrir tæplega 7% samdrátt í kindakjötsframleiðslu á landsvísu jókst sauðfjárinnlegg hjá SS milli ára sem hafði jákvæð áhrif á rekstur afurðahluta félagsins. Gert er ráð fyrir að kindakjötsframleiðsla dragist enn frekar saman á árinu 2020 og aðlagist betur að innanlandsmarkaði. Gert er ráð fyrir áframhaldandi neikvæðum áhrifum af nýjum EB tollasamningi, sérstaklega vegna opnunar fyrir ferskt erlent kjöt.

Kjötiðnaður félagsins stendur traustum fótum og afkoma batnaði á árinu. Á árinu var fjárfest í nýjum vélbúnaði til að auka enn frekar hagkvæmni matvælaframleiðslunnar. Ímynd félagsins á markaði er góð og staða lykilvörumerkja sterk sem treystir grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði. Innflutningshluti félagsins gekk vel á árinu.  Góð tækifæri eru til frekari vaxtar enda félagið í samstarfi við leiðandi aðila á sínu sviði,“ segir í tilkynningunni.

Stikkorð: SS uppgjör