*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 19. apríl 2021 09:31

Niðurskurður hjá Vatíkaninu

Áætlanir Vatíkansins gera ráð fyrir 49,7 milljóna evra hallarekstri í ár þrátt fyrir niðurskurðaraðgerðir.

Ritstjórn
epa

Á sama tíma og flestar Evrópuþjóðir hafa aukið útgjöld til að styðja við hagkerfi sín í faraldrinum, hefur Vatíkanið neyðst til að skera niður útgjöld vegna fækkun ferðamanna ásamt minni framlögum. Vatíkanið, sem er minnsta sjálfstæða þjóð heims, hefur þurft að grípa til sinna ráða og lækka laun alla kardínála, hætta við allar óþarfa viðgerðir á byggingum og draga úr alþjóðlegum ferðalögum. Financial Times segir frá. 

 Francis páfi tilkynnti öllum kardínálum að laun þeirra yrðu lækkuð um 10% í byrjun apríl vegna „hættuástands af völdum útbreiðslu Covid-19, sem hefur haft slæm áhrif á allar tekjulindir Páfastólsins (e. Holy See)“. 

Vatíkanið gerir ráð fyrir 30% samdrætti á heildartekjum sínum og að þær nemi um 213 milljónum evra í ár. Að sama skapi er gert ráð fyrir 49,7 milljóna evra hallarekstri, þrátt fyrir niðurskurðaraðgerðir.  

Juan Antonio Guerrero Alves, æðsti efnahagsfulltrúi Páfastólsins hefur sagt að útgjöld Vatíkansins í ár verða þau lægstu í nútímasögu ríkisins. Hann sagði jafnframt að Vatíkanið geti ekki brugðist við líkt og aðrar þjóðir vegna smæðar ríkisins og takmarkaðra skatttekna. 

„Ef við værum líkt og hefðbundið ríki, þá hefðum við aukið við skuldir okkar og gripið til aðgerða í ríkisfjármálum,“ sagði Guerrero Alves í ríkisdagblaði Vatíkansins.

Í síðustu viku kallaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eftir að allar þjóðir á evrusvæðinu myndu auka útgjöld um 3% af vergri landsframleiðslu til að milda áhrif faraldursins. Vatíkanið, sem er með færra en þúsund íbúa, er ekki meðlimur ESB eða evrusvæðisins en notar evruna engu að síður sem sinn opinberan gjaldmiðil og gefur út eigin evrur.