Afstaða skuldabréfaeigenda og minni kröfuhafa til endurskipulagningar BNT-samstæðunnar, sem á m.a. N1, mun liggja fyrir um miðja næstu viku, að sögn Hermanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra BNT og forstjóra N1. Stærstu kröfuhafar BNT samþykktu í byrjun apríl áætlun sem miðar við að stórum hluta skulda samstæðunnar verði breytt í hlutafé. Skuldir BNT-samstæðunnar nema að lágmarki 60 milljörðum króna samkvæmt síðustu birtu ársreikningum þeirra félaga sem henni tilheyra. Hermann segir að vilji þeirra sem standa að endurskipulagningunni standi til þess að allir kröfuhafar samþykki hana. Nægt atkvæðamagn sé til að fara í formlega nauðasamninga en vilji sé til að ná frekar frjálsum samningi. „Hún er bæði greiðfærari og við teljum hana skila frekari verðmætum. Ferlið stendur enn yfir og ég held að það eigi að klárast um miðja næstu viku.“