Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, voru í dag dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í Exeter-málinu svokallaða. Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í dag en fimm dómarar dæmdu í málinu. Fyrri dómur héraðsdóms yfir Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi bankastjóri MP banka, var ómerktur í Hæstarétti og vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómurinn var kveðinn upp klukkan 16 í dag. Ragnar var einn sakborninga viðstaddur dómsuppkvaðninguna og gekk út úr dómssal að dómsuppkvaðningu lokinni.

Héraðsdómur sýknaði þremenningana síðasta sumar, en einn af dómurunum þremur vildi þó sakfella þá Ragnar og Jón, en var sammála meirihlutanum um að sýkna bæri Styrmi.

Ákæran á hendur Ragnari, Jóni Þorsteini og Styrmi Þór tengist lánveitingum upp á um 1,1 milljarð króna, sem Byr veitti félaginu Exeter frá október til desember 2008. Féð var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik, fyrir að hafa keypt stofnfjárbréfin á yfirverði og með því valdið Byr tjóni sem að öllu jöfnu hefði lent á ákærðu, Ragnari og Jóni Þorsteini, og síðan á MP banka. Styrmir Þór var einnig ákærður í málinu fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.