Um næstu áramót stefnir Samkeppniseftirlitið að því að niðurstaða um næstu skref um aðgerðir vegna samkeppnisaðstæðna á eldsneytismarkaði muni liggja fyrir.

Byggir vinnan á skýrslu um frumniðurstöður úr markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum og áframhaldandi vinnu við hana.

Samkeppniseftirlitið þarf nú að taka nánari afstöðu til frummatsins, með vísan til þeirra sjónarmiða og gagna sem aflað hefur verið undanfarið. Segir í fréttatilkynningu frá eftirlitinu að niðurstaða eftirlitsins geti verið á þrenna vegu, eða blanda þeirra þriggja:

  1. Í fyrsta lagi kann eftirlitið að telja ástæðu til þess að undirbúa íhlutun vegna nánar tiltekinna aðstæðna. Verði þetta niðurstaðan rannsakar eftirlitið þann þátt málsins nánar, birtir aðilum þeirrar rannsóknar andmælaskjal og tekur að því búnu ákvörðun.
  2. Í öðru lagi kann eftirlitið að beina tilmælum um breytingar til stjórnvalda eða fyrirtækja vegna tiltekinna aðstæðna á markaðnum.
  3. Í þriðja lagi kann niðurstaðan að vera sú að ekki sé þörf á frekari umfjöllun Samkeppniseftirlitsins. Ástæða þess kann t.d. að vera að eftirlitið hverfi frá frummati sínu vegna fram kominna sjónarmið, aðstæður hafi breyst eða úrræði séu ekki til staðar.