Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs var neikvætt um 42,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins og er það betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Tekjur á tímabilinu voru 39,8 milljörðum hærri en í fyrra og jukust gjöld um 10,6 milljarða. Innheimtar tekjur jukust um 12,2% á milli ára og námu tæplega 364 milljörðum króna.

Þar af námu skatttekjur og tryggingagjöld 334 milljörðum á tímabilinu og jukust um 11% á milli ára. Sömu sögu er að segja af tekjum af sköttum á vöru og þjónustu og tekjur af vörugjöldum af ökutækjum. Lántökur hins opinbera námu 213,5 milljörðum króna á tímabilinu og voru gefin út ríkisbréf vegna SpKef fyrir 19,2 milljarða króna.