Ingibjörg Þorsteinsdóttir, sem situr í stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME), sagði á fundi með blaðamönnum í morgun að ákvörðun um að víkja Gunnari Þ. Andersen úr starfi hafi verið tekin óháð kæru sem var send til lögreglu í morgun. Hún sagði um að ræða brot í opinberu starfi og það tilvik eitt myndi væntanlega leiða til þess að Gunnari yrði vikið úr starfi tímabundið.

Stjórn FME tilkynnti í morgun að Gunnari hafi verið vikið úr starfi forstjóra eftirlitsins. Í kjölfarið var boðað til fundar með blaðamönnum. Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnarinnar, og aðrir í stjórn sem sátu fundinn vildu á þessari stundu ekki ræða hvað felst nánar í kærunni. Í yfirlýsingu stjórnar segir að stjórn FME hafi borist ábendingar um að Gunnar kynni að hafa brotið af sér í starfi með því að afla sér trúnaðarupplýsinga úr bankakerfinu með ólögmætum hætti.

Gunnari var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn um miðjan febrúar og honum veittur andmælafrestur. Skýrt kom fram í máli stjórnarmanna á blaðamannafundinum að þau telja að Gunnar hafi í störfum sínum sem yfirmaður hjá Landsbankanum árið 2001 ekki veitt FME fullnægjandi upplýsingar um tvö aflandsfélög bankans. Hann hafði á þeim tíma vitað eða átt að vita að upplýsingarnar hafi verið rangar, sagði Ingibjörg á fundinum.

"Þannig að kjarni málsins er þessi, að Gunnar Andersen veitir FME á sínum tíma rangar eða villandi upplýsingar um tilvist þessara félaga. Þessi félög, það kemur skýrt fram í gögnum og meðal annars í andmælum hans, voru sett á fót til þess að fara með eignarhald í félögum þannig að þau kæmu ekki fram í efnahagsreikningi Landsbankans og hafa þannig áhrif á eiginfjárstöðu bankans. Þessi viðskiptaflétta hefði aldrei gengið upp ef að FME hefði haft vitneskju um þessi félög,“ sagði Aðalsteinn á fundinum.