Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar segist ekki hafa íhugað hvort hann segi af sér eftir afhroð flokksins í Alþingiskosningunum á laugardag. Flokkurinn missti alla sína fjóra þingmenn eftir að hafa verið tvö kjörtímabil á þingi í kjölfar þess að hafa sprengt ríkisstjórn sem náði því ekki að lifa út árið.

Flokkurinn hafði verið að mælast undir 5% markinu sem þarf til að fá jöfnunarmenn vikurnar áður, en hann tilkynnti svo um stjórnarslitin aðfaranótt föstudagsins 15. september síðastliðinn tveim dögum eftir að umdeilt fjárlagafrumvarp hafði verið lagt fram.

Ákvörðunin var tekin eftir fund í stjórn flokksins þar sem sitja 80 manns auk formanna og þingmanna flokksins og tilkynnt eftir miðnætti. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma höfðu samstarfsmenn flokksins í öðrum flokkum enga hugmynd um að jafnafdrífarík ákvörðun væri í kortunum  eftir samtöl forystumanna flokkanna skömmu fyrir fundinn.

Fá ekki greiðslur úr ríkissjóði

Þegar talið var upp úr kjörkössunum helgina nam fylgi hans einungis 1,22% sem ekki er nóg til þess að eiga einu sinni rétt á greiðslum úr ríkissjóði, hvað þá að halda í sína fjóra þingmenn.

Óttar segir flokkinn hafa gert sér fulla grein fyrir því að hann ætti á brattann að sækja að því er Morgunblaðið greinir frá. „[O]g að við myndum eiga erfitt með að standa undir þátttöku okkar í umdeildri ríkisstjórn og því að hafa slitið stjórnarsamstarfinu,“ segir Óttarr. „Niðurstaðan er auðvitað fúl fyrir okkur í Bjartri framtíð, neikvæð og svartari en við vonuðumst eftir.“

Óttarr sagðist ekki geta sagt til um áhrif þessara úrslita á stöðu flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. „Sveitarstjórnir yfir höfuð eru dálítið sjálfstæð pólitík og við höfum verið í samstarfi við ólíka flokka,“ segir Óttarr. „Hóparnir okkar sem hafa verið virkir í sveitarstjórnarstarfinu hafa verið mjög sterkir í baklandi Bjartrar framtíðar á landsvísu líka.“