Síminn verður að bjóða allt sjónvarpsefni sitt í ólínulegri dagskrá til dreifingar á öllum fjarskiptanetum landsins, ekki aðeins fjarskiptaneti Símasamstæðunnar. Þetta er niðurstaða úrskurð- arnefndar fjarskipta- og póstmála sem staðfesti ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar þess efnis að gildissvið ákvæðis 5. mgr. 45. gr. næði bæði til línulegrar og ólínulegrar myndmiðlunar. Síminn hafði áður stofnað félag í Lúxemborg með það fyrir augum að flýja íslenskt lagaumhverfi eftir að fjölmiðlanefnd skilaði sambærilegu áliti.

Tildrög málsins eru ágreiningur milli Símans og Vodafone en Síminn hafði hafnað því að viðskiptavinir Vodafone Sjónvarps fengju aðgang að ólínulegri dagskrá Sjónvarps Símans (áður Skjár Einn). Samkvæmt lagaákvæðinu er fjölmiðlaveitu því óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Símanum er því óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna til Mílu. Nú þegar niðurstaða um gildissvið umræddrar lagagreinar liggur fyrir mun Póst- og fjarskiptastofnun taka til endanlegrar úrlausnar hvort Síminn hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðinu.

Háttsemi Símans skaðleg fyrir hagsmuni neytenda

Tildrög málsins eru þau að Síminn fékk í desember 2015 lagt lögbann á Vodafone þar sem Vodafone var bannað að flytja svokallað ólínulegt efni Skjásins (nú Sjónvarp Símans), þ.e. Tímavél Skjásins og Skjá Frelsi, á sjónvarpsdreifikerfi Vodafone. Síminn hefur höfðað mál fyrir héraðsdómi í því skyni að fá lögbannið staðfest.

Vodafone taldi að með því að bjóða einungis upp á ólínulega myndmiðlun á efni Sjónvarps Símans á fjarskiptanetum Símasamstæðunnar hafi Síminn brotið gegn umræddu bannákvæði. Þeir sem áhuga hafi á að horfa á myndefnið utan hefðbundinna sjónvarpsútsendingartíma geti ekki gert það á öðrum fjarskiptanetum en fjarskiptanetum Símasamstæðunnar. Því gætu viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja þurft að færa viðskipti sín yfir til Símans til að geta nálgast efnið, og taldi Vodafone að slíkt hefði skaðlegar afleiðingar í för með sér fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði og þar með á hagsmuni neytenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.