Um helmingur þeirra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sem greiddu atkvæði um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins felldu samningana. Aðildarfyrirtæki SA samþykktu samningana með 98,3% greiddra atkvæða. Bæði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segja niðurstöðuna vera vonbrigði.

Bæði Gylfi og Þorsteinn segja að lögð hafi verið á það áhersla að ná samningum sem myndu stuðla að stöðugleika til langs tíma. „Væntingar um launabreytingar hafa hins vegar verið meiri en það að þær gætu samræmst kröfunni um stöðugleikann,“ segir Gylfi. Gylfi bendir á að samningurinn sem gerður var í lok árs hafi verið skammtímasamningar sem hljóðaði upp á þrennt. Annars vegar launabreytingu vegna ársins 2014 og viðræðuáætlun um gerð næsta kjarasamnings á næsta ári. Í þriðja lagi hafi svo átt að ræða við stjórnvöld um forsendur langtímastöðugleika í formi peningastefnu, vaxtastefnu og svo framvegis. Í ljósi atburða gærdagsins liggur ekkert fyrir um það hvenær samningaviðræður um langtímasamning geta hafist.

Ítarleg umfjöllun er um kjaramálin í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .