Illugi Gunnarsson, fráfarandi menntamálaráðherra, segist ósáttur við umræðu fjölmiðla þess efnis að ekkert hafi verið gert til að bregðast við slökum niðurstöðum úr PISAkönnunum. Hann segist ekki telja að núverandi staða sé bein afleiing niðurskurðar í menntamálum og segir að ef til vill sé kominn tími til að að skoða hvort rétt hafi verið að færa störf grunnskólanna yfir á sveitarfélögin.

Fóru strax í mikla vinnu árið 2013

„Þegar við fengum niðurstöðurnar úr PISA-könnuninni árið 2013 sáum við að það var greinilega að stefna í óefni enda gat stór hluti nemenda okkar gat ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Ég setti því strax af stað mikla vinnu til að bregðast við þróuninni sem hófst á því að við skrifuðum Hvítbók þar sem við fengum í lið með okkur innlenda og erlenda sérfræðinga í þessum málefnum. Í kjölfarið fór ég um landið og hélt um 35 opna fundi vítt og breitt um landið þar sem umræða um læsið var í miklum forgrunni, ásamt öðru,“ útskýrir Illugi.

Þegar þessu samtali var lokið segist Illugi hafa sett á laggirnar vinnuhóp undir forystu Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrverandi háskólarektors, þar sem búin var til áætlun um hvað þyrfti til að breyta lestrarkennslunni. „Við gáfum okkur fimm ár til að ná fram breytingum. Síðastliðið haust voru ráðnir átta sérfræðingar til Menntamálastofnunar en hlutverk þeirra er að vera skólunum og kennurunum til halds og trausts um faglega þætti hvað varðar lestrarkennsluna þar sem eftir því er óskað. Eins starfa þeir að rannsóknum og þróun á ýmsu sem skiptir máli varðandi lestrarkennsluna.

Loks gerðum við skriflegt samkomulag við hvert einasta sveitarfélag og foreldrafélög í landinu um hvernig það bæri ábyrgð á því að vinna áætlun fyrir næstu fimm ár með það að markmiði að bæta læsi barnanna okkar. Þessir samningar grundvallast á því að það eru mismunandi aðstæður á hverjum stað og það geti verið nauðsynlegt að tefla fram mismunandi lausnum í samræmi við það,“ segir Illugi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.