Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Exeter-málinu til Hæstaréttar. Ákvörðunin var tekin síðdegis í gær. Greint var frá þessu í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóri MP banka, voru allir sýknaðir af ákærum ákæruvaldsins gegn þeim í Héraðsdómi í gær. Arngrímur Ísberg, dómsformaður í fjölskipuðum dómi, kvað upp dóminn.

Ákæran á hendur Ragnari, Jóni Þorsteini og Styrmi Þór tengist lánveitingum upp á um 1,1 milljarð króna sem Byr veitti félaginu Exeter frá október til desember 2008 til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka, af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik, fyrir að hafa keypt stofnfjárbréfin á yfirverði og með því valdið Byr tjóni sem að öllu jöfnu hefði lent á ákærðu, Ragnari og Jóni Þorsteini, og síðan á MP banka. Styrmir Þór var einnig ákærður í málinu fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.

Tveir dómarar af þremur, Arngrímur Ísberg og Einar Ingimundarson, höfnuðu því að Ragnar og Jón Þorsteinn hafi gerst sekir um umboðssvik með lánveitingum. Er meðal annars horft til þess að ekki hafi verið sannað að þeir hafi mátt vita að lánin myndu tapast. Í dómi héraðsdóms segir orðrétt: „Þá var og komist að því að óvarlegt væri að líta svo á að ákærðu hefðu ekki tekið fullnægjandi veð fyrir láninu. Þegar litið er til þessa er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að ákærðu hefðu á einhvern hátt mátt eða getað verið ljóst í byrjun október 2008 að þeir myndu með lánveitingunni binda sparisjóðinn þannig að hann biði fjártjón af. Þeir hnökrar sem voru á lánveitingunni, og varða mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakans og vanhæfni ákærðu til að koma að lántökunni, breyta ekki þeirri niðurstöðu. Ákærðu brutu vissulega gegn verklagsreglum sparisjóðsins, en það eitt leiðir ekki til þess að ályktað verði að ásetningur þeirra hafi staðið til þess að misnota aðstöðu sína og stefna fé sparisjóðsins í stórfellda hættu eins og þeir eru ákærðir fyrir.“

Sératkvæði

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari skilar sératkvæði í málinu og telur Ragnar og Jón Þorstein vera seka um umboðssvik. Hún vitnar til vitnisburða stjórnarmanna og starfsmanna Byrs fyrir dómi, sem sýni að þeir hafi brotið gegn lögum með lánveitingunum. Ekki hafi verið lagt mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakenda þegar lánin voru veitt, eins og hafi átt að gera, sem síðan hafi leitt til fjártjóns fyrir sjóðinn.

Allir þrír dómararnir í málinu eru sammála um að sýkna beri Styrmi Þór vegna hans þáttar í málinu. Er þar einkum horft til þess að Styrmir Þór hafi ekki átt aðkomu að málinu með beinum hætti, heldur verið að gæta hagsmuna MP banka.